VW ID.3 og hvernig hann stenst samanburð við Módel 3
- Ingólfur Harri Hermannsson
- Dec 1, 2020
- 7 min read
Updated: Dec 2, 2020

Á dögunum fékk ég lánaðan VW ID.3 til að reynsluaka.
Í byrjun árs 2019 ákvað ég að fá mér VW ID.3. 8 maí sama ár forpantaði ég hann um leið og það var hægt og um haustið flaug ég til Frankfurt til að skoða hann á frumsýningu.
Það er því óhætt að segja að að ég hafi sjaldan verið jafn spenntur fyrir nokkrum bíl.
En þegar leið á veturinn þá breyttust aðstæður örlítið. Þá hafði gengið lækkað töluvert án þess að Tesla breytti sínum verðum og ég ákvað að panta Módel 3 til að tryggja mér það verð ef ég myndi skipta um skoðun. Upplýsingagjöfin frá VW til forpantara hafði verið ansi léleg og misvísandi og mikil óvissa í kring um afhendingu. Og síðan þegar verðin voru upplýst þá voru þau bundin genginu og miðað við fall krónunnar þá var ljóst að Teslan væri mun hagkvæmari kaup þannig ég afpantaði ID.3 rétt tæpu ári eftir að hafa forpantað hann.
En voru það mistök? Það er það sem þessi reynsluakstur á að svara.
Sambærilegir en gjörólíkir VW ID.3 og Tesla Model 3 eru á mjög svipuðu verði með svipað pláss og svipaða drægni. Tesla hefur verið leiðandi í að gera bílana sítengda við netið og með hugbúnaðaruppfærslum yfir netið verða þeir betri og betri. Þessu hefur fylgt að flestir takkar eru horfnir og viðmótið fært meira og minna í skjáinn. VW hefur fylgt þessu trendi. Bílarnir eru sítengdir netinu, verða net-uppfæranlegir í byrjun næsta árs, tökkum er fækkað verulega en ekki jafn mikið og í Teslunni og margt er fært í snertiskjáinn.
En þegar kemur að formi þá eru þeir gjörólíkir. ID.3 er klassískur hatchback bíll sem hafa verið allsráðandi í áratugi í Evrópu á meðan Teslan er blanda af amerískri drossíu og sportbíl. ID.3 er minni bíll og aðeins minna farangursrými en þrátt fyrir það nýtist plássið betur í ID.3, allavega ef maður miðar við bananakassana hans Bjarnar Nyland. Plássið fyrir farþegana er ekki síður gott og það sem skiptir meira máli að þá er mun þægilegra að setjast inn í Volkswageninn og það gefur honum forskot á þessu sviði.
Aksturseignleikar
Það er mjög skemmtilegt að keyra ID.3, fjöðrunin er fín og hann er alveg sérstaklega lipur. Eins og Teslan mín er hann afturhjóladrifinn sem gerir að maður þarf að læra svolítið á það hvernig hann hagar sér í hálku ef maður er bara vanur framhjóladrifnum bílum, en stöðuleikastýringin ætti að hjálpa manni þar. Og þar sem það er ekkert drif á framhjólunum að þá er hægt að taka krappari beygjur og fyrir vikið þá er beygjuhringurinn 1,5m minni en hjá Teslunni.
Viðmót
Sumir halda ekki vatni yfir minimalískri innréttingunni í Model 3 en ég er ekki einn af þeim. Ég vil hafa takka sem puttarnir finna án þess að ég þurfi að taka augun af veginum. Þess vegna var ég ekkert allt of ánægður þegar ég sá að VW væri að stíga stórt skref í að taka út takkana, en sem betur fer ekki alla leið. Á meðan Tesla er bara með tvö skrollhjól á stýrinu þá er ID.3 með heila 16 takka á stýrinu og þar sem þeir eru líka snertitakkar þá er bæði hægt að snerta þá létt eða ýta á þá, þannig möguleikarnir eru enn fleiri. Sömuleiðis eru snertitakkar fyrir ljósin og svo nokkrir snertitakkar fyrir neðan skjáinn til að stjórna hitanum, hljóðinu og fleiru. Þess vegna ætti ID.3 að vera með algjöra yfirburði þarna þrátt fyrir að skjárinn þeirra sé svolítið minni. En því miður þá er það ekki raunin. Satt að segja þá tekst Teslu að nýta þessi tvö skrollhjól á stýrinu alveg ótrúlega vel á meðan allir 16 takkarnir á ID.3 stýrinu sem maður getur bæði strokið og ýtt á eru bara flóknir og leiðinlegir.
Sjálfur hlusta ég mikið á hljóðbækur og hlaðvarp í bílnum og vil því getað stöðvað og haldið áfram eða hoppað nokkrar sek til baka, en það gekk illa að fá það til að virka.
Þannig á meðan fátæklegt viðmótið í Teslunni dugar til að upplifunin sé nokkuð góð og mjög náttúruleg að þá tekst VW ekki að nýta þá takka sem þeir þó skildu eftir til að skila sömu upplifun.
Það er þó einmitt á þessu sviði sem ID.3 á sem mest inni í formi hugbúnaðaruppfærsla.
Annar hluti viðmótsins er mælaborðið og þar rústar ID.3 keppinautinum. Tesla er vissulega með mjög flotta grafík sem sýnir alla bílana í kring um bílinn þinn og akreinarnar, en þetta er á skjánum sem er í miðjunni og sá bílstjóri sem er að horfa á þetta er ekki að horfa á veginn fyrir framan sig. Meira að segja hraðinn er á miðjuskjánum á meðan það er ekkert nema gerviviður á bak við stýrið. ID.3 er hins vegar með alvöru mælaborð sem sýnir allt það helsta og svo eru bestu útgáfurnar með “Augmented reality” búnaði sem teiknar inn umhverfið viðvaranir og leiðarlýsingu með því að varpa því á framrúðuna. Þessi búnaður er reyndar ekki orðinn virkur ennþá en ætti að vera tilbúinn í byrjun næsta árs. Þar fyrir utan eru ID bílarnir líka með ljósarönd við framrúðuna sem sýnir manni hvenær maður eigi að beygja þegar leiðarlýsingin er á.
Innrétting
Innréttingin í ID.3 hefur af mörgum verið gagnrýnd fyrir að vera ódýr harðplastinnrétting og sjálfsagt er það rétt, en ég veit ekki hvort það sé endilega neikvætt. Mér finnst skipta mun meira máli að hún sé flott en hvernig það er að banka í hana. Í fyrstu var ég ekki alveg viss hvað mér þótti um útlitið á innréttingunni. Hún er í raun mjög minimalísk og skjáirnir látnir standa stakir fyrir framan hana. En það sem gefur henni líf eru lituðu ljósrendurnar sem gefa innra rýminu ákveðna stemmningu. Og fyrir þá huguðu sem þora að fá sér bíl með hvítu stýri þá er hvíta og appelsínugula innréttingin virkilega flott, jafnvel þegar ljósin eru slökkt.
Hólfarými eru ágæt og á meðan Teslan virðist leggja meiri áherslu á að hægt sé að fela hólfin þá leggur ID.3 meiri áherslu á að þau séu praktísk. ID.3 fær líka plús fyrir að setja ekki opnunina á hanskahólfinu inn í skjáinn eins og sumir.
Sjálfstýring
Í mörg ár hef ég heyrt að sjálfkeyrandi bílar séu bara rétt handan við hornið, en þeir eru ekki komnir ennþá. Tesla er komin hvað lengst og er nýbyrjuð að betaprófa sjálfstýringu í Bandaríkjunum. Það er samt enn töluvert í að við getum látið bílinn sjá um að skutla börnunum á íþróttaæfingu. En hvað getur bíllinn gert?
Teslan mín getur stýrt innan akreinar og stýrt hraðanum ýmist samkvæmt hámarkshraða eða mínum stillingum og gætt fjarlægðar í næsta bíl og hægt ferðina þegar hún kemur að kröppum beygjum eins og til dæmis í Kömbunum. Nokkuð gott ekki satt?
En hvað getur ID.3 gert? ID.3 er líka með kerfi til að halda bílnum innan akreinar, en það kerfi er alls ekki að stýra bílnum heldur grípur aðeins inn í á síðustu stundu þegar maður er við það að fara út af. Mér skilst að aðrar útgáfur eigi að vera fáanlegar með betri akreinastýringu.
Hraðastillirinn er hins vegar sá langbesti sem ég hef séð. Ég hafði lesið um að hann gæti stillt af hraðann, ekki aðeins eftir því hvernig vegurinn liggur heldur líka hægt ferðina þegar maður þarf að beygja á gatnamótum og sjálfur séð um að koma sér aftur á umferðarhraða eftir beygjur. Til að prófa þetta sérstaklega ákvað ég að láta bílinn reyna sig á virkilega erfiðum vegi, Grafningsvegi að Nesjavöllum, en sá vegur er stútfullur af blindhæðum og kröppum beygjum.
Og prófið byrjaði strax á hringtorgunum í Mosfellsbæ. Á meðan Teslan mín reynir að fara í gegnum hringtorg á 80 km hraða þá hægir ID.3 sjálfur mjúklega á sér fyrir hringtorg, heldur jöfnum hraða í því og gefur síðan rólega aftur inn þegar maður er kominn út úr því, nánast alveg eins og ef ég hefði sjálfur stjórnað inngjöfinni nema hvað ég er vanur að gefa aftur inn örlítið fyrr. Og þegar ég kom að gatnamótum þar sem ég þurfti að taka 90°beygju þá hægði hann líka á sér þar nánast nákvæmlega eins og ég hefði gert það.
En þá kom að prófinu, Grafningsvegi. Á stærstum hluta vegarins er hámarkshraðinn lækkaður, enda er hann þröngur og krókóttur. Og bíllinn nam skiltin vel og lækkaði hraðann og lækkaði hann svo enn meira þegar kom að kröppu beygjunum, en á nokkrum stöðum verð ég að viðurkenna að hann fór töluvert hraðar en ég hefði valið að fara og á stöku stað greip ég inn í og ýtti á bremsuna. Þar sem bíllinn nýtir kortagrunn til að meta æskilegan hraða þá er það svo sem ekkert óeðlilegt að hann haldi að hægt sé að keyra hraðar en er æskilegt þar sem hann sér líklega ekki á korti hvað vegurinn er mjór. Hámarkshraðann miðar bíllinn bæði við skilti sem hann sér en líka við einhvern gagnagrunn sem er ekki beint nákvæmur. Þannig var það á tveim stöðum á kaflanum með 50 km hámarkshraða að hann hækkaði hámarkshraðann skyndilega upp í 90 km, líklega vegna ónákvæms gagnagrunns.
En þrátt fyrir þetta þá virkaði hraðastillirinn langt um betur en sá í Teslunni minni. Vissulega getur hann varla haldið bílnum sjálfur innan akreinarinnar, en þar sem maður þarf hvort eð er að halda um stýrið þegar maður notar þann búnað þá finnst mér betra að stýra bara sjálfur og geta þannig sneitt hjá holum og hjólförum.
Kraftur, drægni og hleðsla
VW ID.3 er mjög snöggur af stað miðað við bensínbíla en miðað við Tesluna er hann algjör snígill svo ekki sé talað um dýrari og kraftmeiri Teslur. Þannig ef það skiptir þig mestu þá er valið augljóst. Uppgefin drægni hjá þeim er svipuð en ég verða að viðurkenna að raundrægni í öllum rafbílum hefur verið fyrir neðan mínar væntingar.
Ég prófaði í tvígang að hlaða ID.3 á 150kW hraðhleðslustöð ON en í í bæði skiptin náði ég ekki einu sinni 50kW hraða þrátt fyrir tiltölulega lága stöðu rafhlöðunnar. Ég hef hins vegar ekki heyrt að neinum vandræðum með hleðsluhraða í þessum bílum þannig ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið eitthvað tilfallandi eða mögulega bara stillingaratriði og að bíllinn fari almennt í 100kW þegar lítið er á geyminum.
Niðurstaða
ID.3 er virkilega vel heppnaður bíll. Þetta klassíska hatchback form er vel nýtt og þar sem hann er hannaður frá grunni sem rafbíl þá nýtist hann ennþá betur. Það er ekkert “frunk” undir húddinu en í staðinn er farþegarými stækkað þannig að það er mjög rúmt um alla og þægilegt að setjast inn í bílinn og fara út úr honum.
Snjalli hraðastillirinn er sá besti sem ég hef prófað og virkar jafnvel inn í hringtorgahverfum bæjarins.
Innréttingin er praktísk með góðum hólfum, mælaborðið er með helstu upplýsingum en það sem verður virkilega spennandi að sjá er þegar “Augmented reality” búnaðurinn verður virkur sem teiknar leiðarlýsingu og viðvaranir beint inn í umhverfið.
En þar sem VW þarf að gera betur er notendaviðmótið og þá sérstaklega hvernig takkarnir og valmyndin í skjánum virkar. Snertinæmu takkarnir eru ekki að virka vel finnst mér og valmyndin í skjánum er ekki auðskiljanleg.
Það verður líka að nefna það að það hefur verið töluvert um bögga í hugbúnaðinum í þessum bílum. Flestir frekar vægir, en sumir þess eðlis að bílar hafa þurft að fara aftur til umboðanna. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart í alveg nýrri línu af bílum.
Sem betur fer er ID.3 af nýrri kynslóð bíla sem eru hannaðir til þess að verða uppfærðir sem þýðir að flestir böggarnir verða lagfærðir innan tíðar og vonandi verður viðmótið líka tekið í gegn.
Og til að svara spurningunni um hvort ég sjái eftir að taka Teslu í staðin fyrir ID.3 þá verð ég að viðurkenna að ég íhugaði það alvarlega hvort ég ætti að skipta, en það sem stoppaði mig var notendaviðmótið.



Comments