Peugeot e 2008
- Ingólfur Harri Hermannsson
- Nov 24, 2020
- 6 min read

Ég hef verið að prófa rafbíla nokkuð skipulega og fylgist vel með þróun þeirra. Mig hefur langað til að prófa rafbíl betur við raunverulegar aðstæður og fara í 400km ferð sem ég fer oft á ári, það er að keyra úr bænum 200 km í sveitina og til baka. Um daginn fékk ég tækifæri til fá Peugeot e 2008 lánaðan í þannig ferð.
Útlit og rými e 2008 bíllinn er virkilega flottur sérstaklega þeir sem eru í björtu litunum, bláum, rauðum eða appesínugulum, og hann er mun flottari í persónu en á mynd. Sérstaklega er ég ánægður með grillið þar sem litur bílsins blæðir inn í það á flottan hátt. Þegar maður set upp í hann þá er svolítið eins og maður sitji í skriðdreka. Maður þarf að stíga yfir óþarflega háan kant og allir gluggar eru frekar hátt uppi. Ég veit ekki ástæðuna fyrir þessu en grunar að þeir séu að reyna að ýta undir SUV upplifunina með þessu. Útsýnið er ekkert allt of gott en þó betra en í litla bróður 208. Sætin eru góð og þægileg og það er fínt pláss fyrir farþega þegar maður er kominn inn, líka afturí, þó mundi ég ekki vilja vera í miðjunni í langferðum, en það á svo sem við flesta bíla. Af SUV stimplinum að dæma bjóst ég við meiru af farangursrýminu. Það er vissulega stærra en á meðal fólksbíl en með falska gólfinu er hæðin takmörkuð og mér fannst það ekki nýtast nógu vel. Í langferðum væri líklega betra að lækka gólfið og finna pláss fyrir kaplana með öðrum farangri.
+ Flott útlit, Gott pláss fyrir farþega
- Skottið mætti nýtast betur, Útsýni svolítið takmarkað.
Drægni og hleðsla Ein aðal ástæðan fyrir því að fara á bílnum í sveitina var að fá betri tilfinningu fyrir eyðslunni og hvernig það væri að hlaða á langferðum. Ég verð að viðurkennan það að ég fékk smá sjokk þegar ég kveikti fyrst á honum og sá uppgefna drægni 180km þrátt fyrir um 90% hleðslu. Þessi bíll er með WLPT drægni upp á 320km (310 samkvæmt EV database). Mig grunaði reyndar sterklega að þetta skýrðist af því þetta væri reynsluakstursbíll þar sem fólk væri mikið að gefa honum inn og það reyndist eitthvað til í því. því á leiðinni upp í Borganes lækkaði uppgefin drægni aðeins um 30 km þó þangað séu um 70km. Þegar á leið jafnaðist þetta út og drægnin fór að fylgja meira landslaginu, hvarf fljótt upp Bröttubrekku en kom að hluta til baka á leiðinni niður. Á endanum mat ég það svo að ég kæmist alla leið í sveitina en ef ekki gengi að hlaða þar væri ég strand þar og því ákvað ég að hlaða í Búðardal, enda hvort eð er að stoppa þar til að næra líkamann. Í sveitinni hlóð ég með hleðslutækinu sem fylgir með. Stakk því bara í samband við venjulega innstungu og fylgdist vel með hitamyndun og það virkaði vel. Auðvitað er þetta svakalega hæg hleðsla en ég fann hvergi hraðann á hleðslunni, hvorki í kW né Amperum, né virtist ég geta stillt það í bílnum og það finnst mér vera ókostur. Það eina sem bíllinn gaf upp var 6km per klukkutíma í hleðslu, sem mér reiknast til að sé á milli 4-5 Amper. En þar sem ég var yfir heila helgi þá var ég ekki í vandræðum með að ná 100% hleðslu. Á heimleiðinni voru aðstæður nánst eins og þær verða verstar fyrir rafbílaakstur. Yfir 10m/s mótvindur alla leiðina og helli rigning. Það vantaði bara snjó og frost. Þegar ég kom í Borganes þá átti ég um 45km eftir á "tankinum" en með 15 mín stoppi var ég kominn með yfirdrifið nóg til að ná í bæinn. Þegar heim var komið prófaði ég 150 kW stöðina á Bæjarhálsi til að sjá hvaða hleðsluhraða ég næði þar. Þegar ég stakk í samband var rafhlaðan með 24% hleðslu og ég hlóð í sléttar 20 mín. Hleðsluhraðinn sem ég fékk var lengi nálægt 80kW. Á þessum 20 mín fékk ég 21kW eða rétt um 63kW meðal hleðsluhraða, sem mér finnst bara mjög gott.
+ Nær góðri hraðhleðslu á skömmum tíma
- Drægni var undir væntingum, Vantar að geta still hleðsluhraða í bílnum
Notendaviðmót Peugeot er með svokallað 3D i-COCKPIT mælaborð sem gefur ákveðinn dýpraráhrif. Mér finnst svo sem ekki skipta máli hvort mælaborðið er með þessum þrívíddaráhrifum. Mikilvægast er auðvitað að það sé mælaborð og hvort það sé þægilegt að horfa á það. Að helstu upplýsingar séu skýrar og það uppfyllir þetta mælaborð vel. Sömuleiðis ber að þakka fyrir að Peugeot gefur notendum sínum takka fyrir neðan snertiskjáinn fyrir helstu aðgerðir nokkuð sem sumir framleiðendur eru mjög sparsamir á. Auðvelt er fyrir bílstjórann að sjá hvað þeir gera og að ýta á þá. Stýrið er frekar lítið og sneitt ofan- og neðan af hringnum og mér finnst það vel heppnað og gera bílinn liprari í akstri. En helsti gallinn við notendaviðmótið er að stór hluti þess er alls ekki auðskilinn (e. intuitive) Hraðastillastöngin er frekar flókin með takka út um allt, en hún er staðsett þannig að það er engin leið að sjá hvað takkarnir gera nema með því að setja hausinn bak við stýrið og jafnvel þá var alls ekki augljóst hvernig hraðastillirinn virkaði. Valmyndakerfið á skjánum er heldur ekki auðskilið og frekar takmarkað hvað er hægt að gera. Takkinn til að skipta á milli ECO, NORMAL og SPORT stillinga er aftarlega á miðjustokknum alveg við handbremsutakkann en mætti gjarnan vera einhverstaðar þar sem maður sér hana, t.d. við gírskiptinguna. Þetta er það sem pirraði mig mest við bílinn en sem beturfer eru þetta atriðin sem maður lærir inn á með tíð og tíma.
+ Takkar og skýrt mælaborð
- Illskiljanlegt notendaviðmót og takmarkaðir möguleikar í skjákerfi
Tækni Jafnvel ódýrasta útgáfan er nokkuð vel búin en ég mundi alltaf vilja hafa skynvæddan hraðastilli (ACC) sem er bara staðalbúnaður í dýrustu útgáfunni en hægt að fá sem aukabúnað í hinum, nema þeirri ódýrustu. Í ferðalögum um landið, sérstaklega í mikilli umferð er algjör snilld að geta látið bílinn sjá alfarið um inngjöf og bremsu. Hins vegar komst ég að því að þessi búnaður er töluvert háður akstursskilyrðum, sem kemur auðvitað ekkert á óvart þegar maður spáir í það. Með þessum búnaði tekur bíllinn ábyrgð á því að stjórna hraðanum og þegar það hellirignir og vindkviður hrista bílinn að þá getur það haft áhrif á skynjarana. Þess vegna slökkti þessi búnaður oft á sér í rokinu á leiðinni í bæinn. Bíllinn er með sjálfvirkar rúðuþurrkur sem virka vel. Maður þarf bara að kveikja á þeim og eftir það þarf maður ekkert að spá í þeim Allir bílarnir eru með akgreinastuðning, eða svokallað Lane keep assist, en satt að segja prófaði ég það ekki. Maður þarf hvort eð er að hafa hendurnar á stýrinu og þá getur maður alveg eins stýrt bílnum Auk þess sem íslenskir vegir eru bæði með lélegar merkingar og djúp hjólför þannig það er í raun betra að hafa slökkt á þessu að mínu mati. Allir nema ódýrasti bíllinn eru með bakkmyndavél. Það eru ekki myndavélar allan hringinn en hins vegar byggir bíllinn upp myndina í kringum bílinn eftir því sem maður bakkar lengra, þannig að ef þú bakkar framhjá staur að þá sýnir bíllinn hvar staurinn er staddur við hliðina á bílnum svo lengi sem bakkmyndavélin hafi einhverntíman séð hann. Þetta finnst mér mjög vel útfært með aðeins einni myndavél. Satt að segja fannst mér það eina sem vantaði upp á tæknina í þessum bíl var auðskiljanlegri valmyndir í skjákerfinu og fleiri möguleika sérstaklega þegar kom að hleðslu, til dæmis að sjá og að geta stillt hleðsluhraða.
+ Vel búinn
- Mættu vera fleiri stillingar í skjákerfi
Aksturseiginleikar Maður fann það vel í rokinu hvað rafbílar liggja vel á veginum því að hann haggaðist varla í vindkviðunum. Fjöðrunin var svona heldur í stífari kantinum en hann er samt þægilegur í akstri. Þegar ég þurfti að fara framúr öðrum bílum þá var það mjög fljótlegt. Þar sem ég þurfti að keyra á malarvegi þá var ég mjög ánægður að hafa hátt undir bílinn. En þó bíllinn hafi vel ráðið við malarveginn fann maður alveg að honum líður mun betur á malbiki. Þetta er enginn jeppi þó hann hafi sæmilega veghæð. Ég notaði mest ECO stillinguna og maður fann alveg að hún takmarkaði hröðunina og sparaði orkuna, en aldrei þannig að það hefti mann mikið.
+ Liggur vel á veginum
- Á frekar heima á malbiki en möl
Niðurstaða Heilt yfir er þetta skemmtilegur bíll og ekki eyðileggur útlitið fyrir honum. Verðið er nokkuð gott miðað við búnað en það mætti gjarnan vera möguleiki á stærri rafhlöðu eins og á mörgum öðrum rafbílum. Þessi er mjög álitlegur kostur þegar hann er borinn saman við eNero og Konuna með litlu rafhlöðunni, en það er erfiðari spurning þegar maður ber hann saman við sömu bíla með stóru rafhlöðunni. Þá veltur svarið helst á því hvað maður er tilbúinn að borga fyrir meiri drægni. Tesla Model 3 SR+ er líka keppinautur, en þeir eru mjög ólíkir þegar kemur að notendaupplifun.



Comments