MG ZS EV
- Ingólfur Harri Hermannsson
- Nov 24, 2020
- 5 min read

Ég fékk lánaðan MG ZS EV frá BL yfir síðustu helgi. Labbaði bara inn og spurði hvort þeir ættu bíl að lána mér og minntist ekkert á að ég ætlaði að skrifa aðeins um hann.
Fyrst ég fékk hann í tæpa 2 daga þá ákvað ég að fara í góðan bíltúr og prófa kynna mér líka hraðhleðslur. Þannig að inn í þessa umsögn blandast reynsla nýliða af hleðslum.
Týpan sem ég prófaði var sú dýrari sem er nokkuð vel búin og kostar um 4,4 milljónir sem verður að teljast nokkuð gott miðað við stærð. Ódýrari útgáfan kostar tæpar 4 milljónir og er líka nokkuð vel búin nema það vantar bakkmyndavél sem mér finnst eiginlega útiloka hana.
Bíllinn er nokkuð rúmur og það eina sem ég get kvartað yfir var að glugginn frammí er nokkuð hátt uppi þannig það er ekki þægilegt að hvíla olnbogann þar. Innréttingin finnst mér líka nokkuð fín og slatti af hólfum í miðjustokknum, og meira að segja eitt hólf nánast undir miðjustokknum sem geymdi USB (A) portið það vel að ég fann það varla. Það var mjög þægilegt að keyra hann, sætin fín og hann virkar mjög sprækur og lipur í akstri.
Tækni Bíllinn er búinn helstu nýjungum eins og akgreinastýringu, akgreinavara, skynvæddum hraðastilli og endalausum skammstöfunum. Hann les líka hraðaskilti, og skiltin sem sýna að hraðatakmörkun sé lokið, birtir í mælaborðinu og kemur með viðvaranir sem er sem betur fer hægt að stilla. Akgreinavarinn fannst mér heldur of næmur, jafnvel þó maður stillti hann á vægari vöktun, en líklega er það vegna þess að maður er oft að stýra bílnum úr hjólförum og framhjá holum. Ég prófaði líka akgreinastýringuna og hún virkaði - stundum. Hún treystir á góðar vegmerkingar báðu megin við bílinn sem eru sjaldan til staðar og það sem verra er, að það var ekki greinilegt hvenær bíllinn hætti að stýra. En annast finnst mér þessi eiginlega frekar tilgangslaus þar sem maður þarf hvort eð er að hafa hendina á stýrinu og því er alveg eins hægt að stýra bílnum. En hins vegar er skynvæddur hraðastillir (ACC) besta uppfinning frá tilkomu rafmótorsins. Þvílíkur munur að geta hvílt báða fætur þegar maður situr í röðinni á Suðurlandsvegi á sunnudagseftirmiðdegi og bíllinn sér sjálfur um að fylgja næsta bíl. Þetta virkaði vel, þó hann hefði alveg mátt vera örlítið jafnari í hraðabreytingum. Bíllinn styður líka Android Auto, sem og samsvarandi Apple lausn, en ég fékk það ekki til að virka með mínum fína Android síma. Ég hefði gjarnan viljað nota það því innbyggða leiðsögukerfið fannst mér ekki skemmtilegt. Fann ekki hvort eða hvernig maður getur notað íslenska stafi og ég átti erfitt með að finna réttu staðina.
Litlu hlutirnir klikkuðu. Það eru 3 akstursstillingar í bílnum, Sport, Normal og Eco og þar sem ég fór í langan bíltúr að þá stillti ég á ECO, enda var sú stilling meira en nógu spræk. Það eru líka 3 regen stillingar. En í hvert skipti sem ég stoppaði og drap á bílnum að þá breyttust þessar stillingar aftur í sjálfgefið val. Í mælaborðinu eru 4 mismunandi skjámyndir sem hægt er flakka á milli með örvatökkum á stýrinu, stafrænn hraðamælir, stillingar, akgreinavara/stýring og hraðastilliskjámynd og svo viðvörunarskjámynd. Mér finnst miklu betra að nota stafrænan hraðamæli en þennan analógiska þannig að ég hafði stillt á þá skjámynd. En í hvert skipti sem ég nálgaðist örlítið akgreinamerkingar eða fór aðeins yfir hámarkshraða að þá komu viðvaranir og skjárinn breyttist sjálfkrafa í aðra skjámynd. Ég endaði á að slökkva á öllum þessum eiginleikum sem voru að gefa viðvaranir, nema skynvædda hraðastillinum, en varð samt að fletta yfir á hraðamælinn á nokkra mínútna fresti. Eina leiðin til að sjá stöðu rafhlöðunnar eru 8 strik sem gefa grófa mynd af því og svo giskarinn, sem gefur manni mismunandi tölu eftir því hvaða akstursstilling er valin. Sú tala getur líka auðveldlega dottið niður um meira en 10 km frá því maður drepur á bílnum og kveikir á honum aftur 2 mínútum seinna en svo hækkað aftur þegar maður er kominn af stað. Eina skiptið sem maður sér hleðsluna í prósentum er þegar maður hleður, en þó ekki ef maður kveikir á honum og aðeins í skamman tíma í einu. Og ekki er hægt að sjá hleðsluhraðann neinstaðar í bílnum. Ég fann aldrei neina leið til þess að slökkva á útvarpinu. Það var bara mute-takki, bæði á stýrinu og í skjánum, og líklega er það bara þannig sem maður slekkur á útvarpinu, nema hvað að í hvert sinn sem ég ræsti bílinn að þá var aftur kveikt á útvarpinu. Þetta var sérstaklega pirrandi þegar maður keyrði á milli bæja og stöðin sem hafði verið stillt á var ekki til í nýja bænum og í stað hljómaði bara suð. Alla þessa galla er hægt að draga í eina setningu: Notendaviðmótið er mjög slappt. Ekkert af þessu mundi ég þó telja vera "Deal breaker"
Drægnikvíði Það sem ég helst hef að athuga við bílinn er drægnin. Uppgefin drægni er 263km en fyrir mínar þarfir þá mundi ég vilja það sem raundrægni að lágmarki. Þegar ég fékk bílinn þá var hann með tæplega hálfa hleðslu, sem var fínt þar sem ég vildi fá að prófa að hlaða hann. Ég hafði heyrt að hleðsluportið væri leiðinlega staðsett en mér fannst það ekki tilfellið. Eftir að hafa prófað hann vel innanbæjar setti ég hann í hleðslu á Bæjarhálsi í 150kW stöðinni þar sem samkvæmt spekkum á hann að styðja allt að 76kW hleðsluhraða og hann var kominn niður í 19% hleðslu. En því miður náði hann aldrei nema 38kw hleðsluhraða samkvæmt stöðinni og hélt því þar til hann var kominn í 80% en þá féll hraðinn í 16kW. Þar sem ég ætlaði í langan bíltúr daginn eftir þá vildi ég hlaða alla leið í 100%. 16kW hraðinn hélt framyfir 90% en þá datt hann alla leið niður í 6kW. Það tók því ca 1,5 tíma að hlaða frá 19% í 100%. Bíltúrinn sem ég hafði planað var góður sunnudagsbíltúr. Út að Garðskagavita, Suður í Grindavík, eftir Suðurstrandaveginum í Þorlákshöfn, í Hveragerði og svo heim, eða um 224km. Giskarinn gaf upp um 240 km svo það var ekki mikið upp á að hlaupa, en frá Þorlákshöfn voru 3 hleðslustöðvar á leiðinni í bæinn. Ég var allan tímann á Eco stillingunni en keyrði samt á eðlilegum umferðarhraða og tók tvisvar framúr hægfara bílum á Suðurstrandavegi, þannig ég var ekki í neinni sparaksturskeppni heldur keyrði ég bara eins og ég keyri besínbíla. Þegar ég kom til Þorlákshafnar var ljóst að ég mundi ekki ná alla leið án hleðslustopps og því leitaði ég uppi hleðslustöðina og stakk í samband. Þar fór stöðin í gegnum þetta venjubundna, að prófa tenginguna og hefja síðan hleðslu, en um leið og hún byrjaði þá stöðvaðist hún á ný vegna einhverrar villu. Eftir að hafa prófað þetta tvisvar hringdi ég í vaktsímann þar sem þjónustufulltrúinn fann út að vandamálið væri bundið við tenginguna við bílinn en ekki í stöðinni sjálfri. Þarna byrjaði drægnikvíðinn að láta kræla á sér og því ákvað ég þarna að sleppa Hveragerði og fara Þrengslin og reyna að hlaða við Hellisheiðarvirkjun því ef fleiri hleðslustöðvar mundu klikka að þá ætti hann að ná að slefa í bæinn samkvæmt giskaranum Frá Þorlákshöfn og að Hellisheiðinni lækkaði ég hraðann verulega, dauðhræddur við hækkunina. En hleðslan við virkjunina virkaði eins og í sögu, náði nálægt 50kW hraða og á meðan ég hlóð kíkti ég á háhitasýninguna.
Niðurstaða Á heildina litið er MG ZS EV fínn bíll á góðu verði en með slappan hugbúnað og of litla drægni fyrir mig.



Comments